Aðferða- og gæðahandbók í læknisfræðilegri myndgreiningu. 

Valmynd

Um Gæðavísi


Raförninn ehf. býður upp á alhliða tækniþjónustu með viðhald og mælingar á myndgreiningarbúnaði sem sérsvið. 

Gæðavísir Rafarnarins er sérlausn fyrir myndgreiningardeildir sem miðar að því að samræma og staðla starfsemina með viðeigandi leiðbeiningum. Grunnleiðbeiningar um almennar röntgenrannsóknir, skuggaefnanotkun og geislavarnir eru innifaldar en auk þess er boðið upp á að setja upp sérhæfða gæðahandbók með innihaldi eftir þörfum hvers viðskiptavinar.

Tilgangur Gæðavísis
Markmiðið er að sjúklingurinn* fái sem besta og öruggasta þjónustu, verði fyrir eins litlu geislaálagi og mögulegt er og greiningargildi myndanna sé sem mest. Leiðbeiningar vegna skuggaefnisgjafar eru ætlaðar til að tryggja, eins og mögulegt er, öryggi sjúklinga bæði meðan á rannsókn stendur og eftir að rannsókn er lokið. 

  • Leiðbeiningarnar eru ekki settar fram sem ósveigjanlegar reglur, heldur sem hugmynd að ákjósanlegu vinnuferli, þar sem gætt er þarfa sjúklinga hverju sinni. Engu að síður byggja leiðbeiningarnar á heimildum, uppsafnaðri þekkingu og reynslu.
  • Leiðbeiningarnar eiga að vera til stuðnings öllum þeim er starfa við myndgerð og myndgreiningu. Aðferðafræði við framkvæmd rannsókna er lýst og notuð eru sömu rannsóknaheiti og í Myndgátinni, sem er eina innstillingabókin sem gefin hefur verið út á íslensku. Efni Myndgátarinnar er einnig aðgengilegt í Gæðavísi.
    Fjallað er ýtarlega um notkun joðskuggaefna auk þess sem bent er á helstu atriði varðandi geislavarnir og siðareglur.
  • Raförninn ber ábyrgð á uppsetningu (útliti) efnis í Gæðavísi og innihaldi almenna hluta hans en forsvarsmenn hvers vinnustaðar bera ábyrgð á innihaldi lokaðrar gæðahandbókar fyrir sinn vinnustað. 

Aðhald og aðstoð notenda
Gæðavísir er í stöðugri þróun og endurskoðun og athugasemdir og tillögur um nýtt efni eru því vel þegnar.
Best er að hafa samband við gæðastjóra Rafarnarins, Eddu G. Aradóttur. Hægt er að nota netfangið edda@raforninn.is, síma 860 3748, eða aðrar samskiptaleiðir að eigin vali.
Við svörum öllum ábendingum eins fljótt og mögulegt er. 

Þakkir
Raförninn þakkar öllum þeim sem komið hafa að uppsetningu og þróun Gæðavísis. Sérstakar þakkir fá þau Dagný Sverrisdóttir, geislafræðingur, og Viktor Sighvatsson, röntgenlæknir.   

* Eins og í lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, er orðið sjúklingur notað í Gæðavísi um alla sem nota heilbrigðisþjónustu.